Æsku-Emil
Hann Emil okkar er dáinn, hann dó 27. mars 2006. Það ríkir mikil sorg á heimilinu. Þrátt fyrir yndislega Husky hunda þá kemur enginn í staðinn fyrir hann. Hann fylgdi okkur hvert fótmál alla tíð og hann fagnaði manni alltaf eins og hann hefði ekki séð mann í margar vikur. Við vissum svo sem að hann yrði ekki langlífur, en samt……

Emil var ekki hluti af Múlaræktun en var samt prinsinn á bænum. Hann var Enskur Springel Spaniel og kom til okkar 4 mánaða. Hann var fæddur 29. október 1999. Hann var fyrsti hundurinn okkar. Honum fannst alltaf afar gaman að sýna og skemmti sér vel á sýningum. Hann vann til fjölda verðlauna, var Íslenskur meistari og hefur hlotið tvö alþjóðleg meistarastig. Eftir að hann varð meistari vorum við beðinn um hann í ræktun og fór hann þá í myndatöku. Það kom í ljós að hann var með verulegan mjaðmagalla og þar með var sá draumur búinn. Emil hafði mjög gaman af gönguferðum og fylgdi frúnni á bænum í margar göngur alveg síðan hann var lítill hvolpur. Á sunnudögum var alltaf farið í góðar gönguferðir og það er eins og Emil vissi alltaf þegar sunnudagurinn rann upp. Þá vék hann ekki frá frúnni og leit ekki við húsbóndanum.