Eldur
ISCH Heimskautanætur Eldur
Eldur er fæddur 21. nóvember 2003. Við fengum hann í janúar2004. Frá fyrsta degi hefur hann heillað okkur upp úr skónum. Hann er afar skemmtilegur karakter, hlýr og blíður en samt hefur hann sjálfstæði með villtu stolti, sem er ákaflega aðlaðandi. Hann er frábær heimilishundur og það skemmtilegasta sem hann gerir er að taka á móti gestum. Vonlaus varðhundur, því hann býður alla velkomna. Hann laðast að börnum og velur sér alltaf það yngsta til að vera góður við. Það erfiða við Eld, er eins og með marga Siberian Husky, að hann er með veiðidellu. Hann er afar hrifinn af kindum, músum og fuglum. Eldur er rauður og hvítur, með annað augað blátt og hitt gulbrúnt.
Honum hefur gengið mjög vel á sýningum. Hann hefur frá fyrstu sýningu fengið fyrstu einkunn og fékk sitt þriðja íslandsmeistarastig á júnísýningunni 2006 og er því orðin Íslandsmeistari. Hann er einnig með tvö alþjóðleg meistarastig.
Eld gekk mjög vel á haustsýningu HRFÍ 2006.
Hann var sýndur í fyrsta skipti í meistaraflokki og hann fékk vara alþjóðlegt meistarastig.
Eld gekk mjög vel á Marssýningu HRFÍ 2007. Hann vann rakkana og fékk sitt annað alþjóðlega meistarastig. Umsögnin var: Excellent breed type. This male is very close up too the breed standard in every point of view. He represents the real Husky type incl.movement.
Eldur var ekki sýndur á júnísýningu HRFÍ enda orðinn Íslandsmeistari. Á haustsýningu HRFÍ 2007 var Eldur verðugur meistari en lenti í 4. sæti rakka, nokkuð sem ekki hefur gerst áður. Prins sonur hans var í 2. sæti.
Eldur var sýndur á marssýningunni 2008. Að öllum líkindum í síðasta sinn. Hann varð 2. besti rakki og í 3. og 4. sæti urðu synir hans Berg og Blanco. Hann var verðugur meistari og fékk vara alþjóðlegt stig. Umsögn dómarans var: 4 years, excellent type, nice head, nice body, correct legs, very good movemen in front, excellent in behind, correct tail carriage, nice scull.
Eldur greindist með catarac vorið 2007 og við létum gelda hann í apríl 2008. Hann er áfram kóngurinn, gefur það ekki eftir þó hann sé geldur.
Eldur fór í augnskoðun í nóvember 2009 og það kom í ljós að hann hefur ekkert versnað af catarac. Hann sér jafn vel nú eins og vorið 2007 þegar hann var greindur.
Í lok árs 2009 sendum við blóðsýni úr Eldi til stofnunar í USA sem er að reyna að finna genið sem veldur catarac. Við væntumst mikils af þessu fólki og bíðum spennt eftir niðurstöðunum.
Haustið 2010 eignuðumst við sleða og vorið 2011 eignuðumst við „Sacco vagn“ og síðan þá höfum við spennt Eld fyrir sleða og vagn á gamals aldri. Hann er svo sem ekkert viljugur en þetta gengur.
Sumarið 2011 varð Eldur „hundavinur hjá Rauða Krossinum“ og fer hann inn á sjúkradeild á Sjúkrahúsinu á Egilsstöðum einu sinni í viku til að heimsækja eldri borgara sem þar dvelja. Frá janúar 2012 fer hann einnig í heimsókn á sambýli í Bláargerði á Egilsstöðum.
Fólkið sem hann heimsækir er afar ánægt með að fá að hitta ljúflinginn okkar.
Eldur dó eftir mjög snörp veikind 9. ágúst 2016. Hann var alla tíð heilsuhraustur og þrátt fyrir háan aldur áttum við ekki von á að missa hann svona fljótt. Hann var með blæðandi æxli í lifur og ekkert hægt að gera.
Eldur var afar sérstakur og skipaði mjög stóran sess í hjarta okkar. Hann kenndi okkur að hundar eru mikla tilfinningaverur. Þegar Róma dó fyrir nokkrum árum þá leitaði hann að henni og var mjög sorgmæddur. Þau höfðu sofið saman í bæli í morg ár. Aska dóttir hans braust út úr búrinu sínu og svaf eftir það hjá pabba sínum. Þegar hún dó fyrir 2 mánuðum þá hrundi Eldur. Varð óöruggur og vildi ekki lengur sofa niðri, vildi vera hjá okkur. En hann var samt hress líkamlega þar til um síðustu helgi.
Það er eins og maður hafi misst fjölskyldumeðlim svo stórt skarð skilur hann eftir sig elsku kóngurinn okkar.